Leita í fréttum mbl.is

Örvæntingarfullt ESB

Eftir því sem áhuginn á inngöngu í Evrópusambandið minnkar hér á landi aukast gylliboð sambandsins.  Evrópusambandinu er mikið í mun að fá Ísland í sínar raðir enda landið okkar ríkt af náttúruauðlindum sem sambandið vanhagar sárlega um, fisk, olíu og gasi. Evrópusambandið hefur rústað eigin fiskimiðum fyrir margt löngu og hafa því lengi sózt eftir því að komast í mið annarra. Þeim miðum hefur mörgum hverjum verið rústað að sama skapi. Sambandið er mjög háð öðrum ríkjum með gas og olíu, ekki sízt Rússum hvað gasið varðar. Ráðamenn í Brussel klæjar því eðlilega í puttana að komast í okkar auðlindir og tryggja sér aðgang að þeim á eigin forsendum.

Nú á Ísland að fá einhvers konar hraðferð inn í Evrópusambandið. Haft er eftir Olli Rehn, ráðherra stækkunarmála sambandsins, á Vísir.is að innganga Íslands yrði hvalreki fyrir það. Sem er alveg hárrétt eins og getið er hér að ofan. En eftir sem áður tæki mörg ár að taka upp evruna þó af inngöngu yrði. Þess utan yrði seint einhver lausn fólgin í því, ekki sízt þar sem framtíð evrusvæðisins er vægast sagt óljós.

Það sem tryggja mun framtíð okkar Íslendinga sem þjóðar eru ekki sízt náttúruauðlindir landsins okkar en forsenda þess er að við höldum yfirráðunum yfir þeim í okkar höndum. Það verður ekki ef Ísland verður hluti af Evrópusambandinu.


mbl.is Fengjum forgang inn í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband