Mánudagur, 24. febrúar 2014
Sérlausnir eru ekki undanþágur
Mikið hefur verið rætt að undanförnu um það hvort Ísland gæti fengið svonefndar sérlausnir eða varanlegar undanþágur frá löggjöf Evrópusambandsins ef landið færi þar inn. Talsverðs miskilnings hefur gætt í þeim efnum og þetta stundum lagt að jöfnu. Vafalítið hefur það verið gert með vilja í sumum tilfellum til þess láta í það skína að eitthvað meira kynni að vera í boði en raunveruleikinn hljóðar upp á og í öðrum væntanlega vegna vanþekkingar.
Grundvallarmunur er á sérlausnum og varanlegum undanþágum. Varanlegar undanþágur fela það í sér að eitthvað standi utan við lögsögu Evrópusambandsins og þar með yfirstjórn þess. Með öðrum orðum hafi sambandið einfaldlega enga aðkomu að málinu enda sé það ekki á forræði þess. Eini möguleikinn til þess að Ísland gæti haldið yfirráðum yfir sjávarútvegsmálum sínum ef inn í Evrópusambandið yrði farið væri með varanlegri undanþágu frá sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins og þeim ákvæðum Lissabon-sáttmálans sem kveða á um algert forræði þess í þeim efnum.
Sérlausnir kveða hins vegar einungis á um stjórnsýslubreytingar upp að einhverju marki en í samræmi við grundvallarlöggjöf Evrópusambandsins. Þá einkum og sér í lagi Lissabon-sáttmálann þar sem, eins og áður segir, er meðal annars kveðið á um algert forræði sambandsins í sjávarútvegsmálum. Með öðrum orðum þýða sérlausnir að viðkomandi mál eru eftir sem áður á forræði Evrópusambandsins og undir vald þess og yfirstjórn sett. Sérlausnir gætu þannig aldrei orðið til þess að Íslendingar héldu yfirráðum sínum yfir stjórn sjávarútvegsmála á Íslandsmiðum og nýtingu auðlinda þeirra.
Heimskautalandbúnaður og sænskt snus
Gott dæmi um það hvernig sérlausnir virka er svonefndur heimskautalandbúnaður Finnlands og Svíþjóðar sem oft verið verið rætt um. Þarlendum stjórnvöldum er heimilt samkvæmt inngönguskilmálum landa sinna í Evrópusambandið að styrkja innlendan landbúnað norðan 62. breiddargráðu og á nokkrum aðliggjandi svæðum úr vösum eigin skattgreiðenda til viðbótar við landbúnaðarstyrki sambandsins. Hins vegar getur sambandið eftir atvikum ákveðið að stuðningurinn falli alfarið á brott með breyttum áherzlum þess í landbúnaðarmálum. Málið er einfaldlega á forræði Evrópusambandsins. Lesa má um þetta meðal annars í riti Stefáns Más Stefánssonar, lagaprófessors við Háskóla Íslands og sérfræðings í Evrópurétti, Landbúnaðarlöggjöf Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins frá 2011.
Einnig má til að mynda nefna sænska munntóbakið snus en samkvæmt inngönguskilmálum Svíþjóðar í Evrópusambandið mátti áfram framleiða og neyta þess innan sænskra landsteina. Hins vegar var sala þess til annarra ríkja sambandsins og neyzla þess þar bönnuð. Þessu var fagnað sem miklum sigri í viðræðum um inngöngu Svía í Evrópusambandið. Fyrir ekki alls löngu hugðist sambandið hins vegar setja nýjar reglur sem banna áttu bragðefni í munntóbaki sem hefðu gert framleiðslu á snusi ómögulega en ráðamenn í Brussel féllu að lokum frá þeim áformum. Þetta gat Evrópusambandið hins vegar gert og getur enn vegna þess að málið heyrir undir lögsögu þess og forræði.
Þessi tvö dæmi varpa ágætu ljósi á það hvernig sérlausnir virka. Þær koma ekki í veg fyrir að yfirstjórn viðkomandi mála færist til Evrópusambandsins. Einungis varanlegar undanþágur frá valdi sambandsins geta mögulega tryggt slíkt. Evrópusambandið hefur hins vegar ítrekað lýst því yfir að varanlegar undanþágur séu ekki í boði fyrir umsóknarríki enda hefur engu ríki sem gengið hefur í sambandið staðið slíkt til boða líkt og meðal annars er rakið í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem birt var í síðustu viku. Það eina sem kann að vera í boði eru sérlausnir og tímabundnar undanþágur.
Hvað með allt hitt fyrir utan sjávarútveginn?
Þá má geta þess að síðast þegar Norðmenn sóttu um inngöngu í Evrópusambandið fóru þeir fram á að fá að halda yfirstjórn sinni yfir eigin sjávarútvegi. Ekki sízt með vísan í mikilvægi hans fyrir ýmsar byggðir landsins og útflutning þess. En sambandið hafnaði því alfarið. Meðal annars með vísan í að slíkt færi í bága við löggjöf þess auk þess sem önnur ríki gætu þá farið fram á það sama. Þeim var hins vegar boðin tímabundin undanþága sem fallið hefði úr gildi sumarið 1998. Um þetta er ítarlega fjallað í bók Stefáns Más og Óttars Pálssonar, hæstaréttarlögmanns, Fiskveiðireglur Íslands og Evrópusambandsins frá árinu 2003.
Hitt er svo annað mál að jafnvel þó Ísland færi inn í Evrópusambandið með slíka varanlega undanþágu fyrir sjávarútveginn sem engar líkur eru þó á að fengist, hvað með allt hitt? Eðlilega hlýtur sú spurning að vakna hvað það stoðaði ef landið færi að öðru leyti undir yfirstjórn Evrópusambandsins á flestum öðrum sviðum og sífellt fleiri eins og sambandið hefur verið að þróast? Væri það ásættanlegt? Ég á bágt með að ímynda mér það.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Evrópumál | Breytt s.d. kl. 12:46 | Facebook
Nýjustu færslur
- Hvar myndi það líka enda?
- "Vinstristjórnir" Steingríms
- Stóð Jóhanna sig bezt?
- Minna öryggi með Schengen
- Málinu snúið á haus
- Bannað að draga taum heimalandsins
- Harðlínumenn?
- Hverju klúðruðu Hollendingar?
- Nýr "hægriflokkur"? Fínt!
- Vantar upplýsingar?
- Hvers vegna ekki EPP?
- Slétt sama um kosningaloforð
- Svissneska leiðin?
- Svik við þjóðina?
- Trúverðugt?