Færsluflokkur: Löggæsla
Laugardagur, 26. júlí 2014
Minna öryggi með Schengen

Þegar sérstök hætta er talin vera á ferðum er aðildarríkjum Schengen-samstarfsins heimilt samkvæmt reglum þess að taka upp hefðbundið landamæraeftirlit. Það hafa norsk stjórnvöld nú ákveðið að gera þar sem óttast er að Noregur standi frammi fyrir yfirvofandi hryðjuverkaárás. Schengen-samstarfið gengur út á það í stuttu máli að hefðbundið landamæraeftirlit er fellt niður á milli aðildarríkja samstarfsins en eflt á svokölluðum ytri landamærum þess. Með áðurnefndri heimild og ítrekaðri beitingu hennar af ýmsum aðildarríkjum Schengen-samstarfsins (þar á meðal af Íslandi) felst hins vegar viðurkenning á því að meira öryggi felist í hefðbundnu eftirliti en ef því er ekki fyrir að fara.
Með aðild Íslands að Schengen-samstarfinu var því öryggi sem felst í náttúrulegum landamærum landsins í raun fórnað. Þess í stað liggja ytri landamæri Íslands í dag hvað þetta varðar meðal annars að Rússlandi, Hvíta-Rússlandi, Úkraínu og Tyrklandi svo dæmi séu tekin en landamæraeftirliti á þessum slóðum hefur verið mjög ábótavent í gegnum tíðina. Bretar kusu að standa utan Schengen-samstarfsins einkum af þeirri ástæðu að Bretland er eyja með náttúruleg landamæri. Samstarfið er eins og fjölmargt annað á vegum Evrópusambandsins hannað fyrst og síðast með hagsmuni ríkja á meginlandi Evrópu í huga þar sem landamæri eru víðast hvar einfaldlega lína á jörðinni ef svo má að orði komast.
Sú ákvörðun að Ísland tæki þátt í Schengen-samstarfinu var á sínum tíma tekin af aðeins einni pólitískri ástæðu. Til þes að viðhalda norræna vegabréfasamstarfinu í ljósi þess að hinar Norðurlandaþjóðirnar (utan Færeyinga og Grænlendinga) ætluðu að taka þátt í því. Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, fjallaði um þetta í ræðu sem hann flutti 18. október 2002 á málþingi Lögfræðingafélags Íslands þar sem hann sagði meðal annars að ekki yrði á móti því mælt að landamæraeftirlit við Ísland hefði orðið veikara með aðild landsins að Schengen-samstarfinu.
Markmið Schengen-samstarfsins er að tryggja frjálsa för fólks innan aðildarríkja þess með því að fella niður landamæravörslu á milli þeirra, en styrkja um leið eftirlit með ytri landamærum þeirra og svonefndra þriðju landa og koma upp öflugri lögreglusamvinnu í því skyni. Þetta má teljast eðlileg þróun á meginlandi Evrópu vegna þess að þar hafa ríkin fyrir löngu gefist upp á að halda uppi eftirliti á landamærum sín á milli. En málið kann að horfa nokkuð á annan veg við gagnvart eyríkjum, sem af landfræðilegum ástæðum hafa alla burði til að halda uppi öflugu landamæraeftirliti og ná að því leyti sama eða jafnvel mun betri árangri en að er stefnt með Schengen-samstarfinu. Niðurstaðan í Bretlandi og á Írlandi varð sú, að þeir myndu áfram gæta sjálfir eigin landamæra, en niðurstaðan hér varð sem kunnugt er sú einkum af tryggð við grannríkin annars staðar á Norðurlöndum og svonefnt norrænt vegabréfasamband að flytja eftirlit með landamærum okkar frá Keflavík alla leið til Mílanó, Madrid og Mykonos, svo dæmi séu tekin, svo traustvekjandi sem það kann annars að þykja, og leggja í staðinn traust okkar og trúnað á sameiginlega gagnabanka Schengen-samstarfsins.
Nýjustu færslur
- Hvar myndi það líka enda?
- "Vinstristjórnir" Steingríms
- Stóð Jóhanna sig bezt?
- Minna öryggi með Schengen
- Málinu snúið á haus
- Bannað að draga taum heimalandsins
- Harðlínumenn?
- Hverju klúðruðu Hollendingar?
- Nýr "hægriflokkur"? Fínt!
- Vantar upplýsingar?
- Hvers vegna ekki EPP?
- Slétt sama um kosningaloforð
- Svissneska leiðin?
- Svik við þjóðina?
- Trúverðugt?