Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hvers vegna ekki EPP?

Regnhlífarsamtök hérlendra Evrópusambandssinna, Já Ísland, eru greinilega eitthvað ósátt við það að Sjálfstæðisflokkurinn hafi kosið að starfa frekar með evrópsku samtökunum AECR (Alliance of European Conservatives and Reformists) en EPP (European People's Party). Þannig vill hins vegar til að EPP vilja að Evrópusambandið verði að einu ríki ólíkt AECR sem hafa efasemdir um Evrópusamrunann. En það markmið EPP er líklega engin frágangssök að mati Já Íslands enda eru þau að ég bezt veit sjálf hlynnt því.

Úr stefnuskrá EPP: "The European Union is not a state but works with instruments of a federal union in those policy fields in which it has received the competences of its Member States. [...] In line with the commitment to Europe, which the Christian Democrats have shown since the very beginning, the EPP calls for gradual – but resolute– progress towards a genuine political union following the basic lines defined by the 1992 Athens Programme and the subsequent congresses. We want a European Political Union." 

Þess má geta að brezki Íhaldsflokkurinn gekk einmitt úr EPP á sínum tíma og beitti sér fyrir stofnun AECR af þessari sömu ástæðu.


Slétt sama um kosningaloforð

Stjórnarandstæðingar krefjast þess að ríkisstjórnin standi við meint kosningaloforð í tengslum við Evrópumálin. En það er alls ekki svo að stjórnarandstæðingar vilji að ríkisstjórnarflokkarnir standi almennt við kosningaloforð sín. Raunar vilja þeir væntanlega að staðið sé við fæst þeirra. Enda væntanlega fæst þeim að skapi.
 
Þannig börðust stjórnarandstæðingar til að mynda gegn því síðasta sumar að ríkisstjórnarflokkarnir stæðu við kosningaloforð sín um að hækka ekki veiðigjöld. Málþóf fór fram, mótmæli og undirskriftasöfnun. Allt til þess að stjórnarflokkarnir gætu ekki staðið við þessi kosningaloforð sín.

Þar var þó ekki einungis um að ræða yfirlýsingar einstaka frambjóðenda fyrir kosningarnar heldur eitthvað sem var í fullu samæmi við stefnuskrár ríkisstjórnarflokkanna. Það skipti hins vegar engu máli enda er útgangspunktur stjórnarandstæðinga ekki meint eða raunveruleg kosningaloforð.

Útgangspunkturinn er einfaldlega hvort um sé að ræða eitthvað sem er stjórnarandstæðingum að skapi. Það skal staðið við en alls ekki annað. Þó því hafi verið lofað. Málið snýst einfaldlega ekki um kosningaloforð þó það hljómi betur að halda því fram í þágu áróðursins. Málið snýst um pólitík.


Svissneska leiðin?

Merkilegt er að fylgjast með því hvernig harðir stuðningsmenn inngöngu Íslands í Evrópusambandið eru uppfullir af sáttavilja nú þegar ljóst er að umsókn Íslands um inngöngu í sambandið verður dregin til baka. Einn þeirra er Eiríkur Bergmann Einarsson, stjórnmálafræðingur, sem lagði það til í gær að farin yrði svissnesk leið við afgreiðslu á málinu. Það er að setja umsóknina ofan í skúffu í stað þess að draga hana til baka. Þetta segir hann augljóst fordæmi.

Vandinn við þessa tillögu Eiríks er að grundvallarmunur er á aðstæðum í Sviss fyrir rúmum tveimur áratugum, þegar ákveðið var að setja umsókn landsins um inngöngu í Evrópusambandið ofan í skúffu, og hér á landi í dag. Þáverandi ríkisstjórn í Sviss vildi ganga í sambandið. En þar sem svissneskir kjósendur höfðu skömmu áður fellt aðild að EES-samningnum í desember 1992 (ekki 1993, Eiríkur) taldi hún ekki gerlegt að fá inngöngu í Evrópusambandið samþykkta og saltaði því málið. Tilgangslaust væri þannig að halda áfram nema bæði pólitískur og almennur vilji væri fyrir inngöngu í sambandið.

Þetta er sambærilegra við það ef síðasta ríkisstjórn vinstriflokkanna hefði ákveðið að setja umsókn sína um inngöngu í Evrópusambandið í salt vegna andstöðu meðal almennings (og innan eigin raða). Sem má reyndar segja að hún hafi gert í byrjun árs 2013. Hins vegar er flestum væntanlega ljóst að núverandi ríkisstjórn Íslands er ekki hlynnt inngöngu í sambandið. Með öðrum orðum er engan veginn um sambærilegar aðstæður að ræða og í Sviss fyrir rúmum tveimur áratugum þó Eiríkur telji svo vera enda hvorki ríkisstjórnin né meirihluti almennings hlynntur inngöngu í Evrópusambandið.

Eldri skrif: 

Svik við þjóðina?

Trúverðugt? 

Sérlausnir eru ekki undanþágur


Svik við þjóðina?

Því er nú haldið fram að það séu svik við þjóðina að draga umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið til baka. Mér er þó ekki kunnugt um að öll þjóðin hafi kosið Sjálfstæðisflokkinn. Hafi einhver svik átt sér stað geta þau í mesta lagi hafa beinzt að afmörkuðum hópi kjósenda flokksins sem kunna að hafa grundvallað atkvæði sitt í síðustu þingkosningum á því að málið færi í þjóðaratkvæði. Það þykir allajafna ekki til marks um góðan málstað þegar menn finna sig knúna til þess að gera miklu meira úr honum en veruleikinn hljóðar upp á. Það bendir ekki til þess að þeir telji raunverulegan málstað sinn nógu sterkan.

Þess utan er rétt að hafa í huga að stefna Sjálfstæðisflokksins, samþykkt á síðasta landfundi hans sem er æðsta valdið í málefnum flokksins, gerir ekki ráð fyrir því að þjóðaratkvæði fari fram nema að því tilskildu að pólitísk ákvörðun yrði fyrst tekin um að halda umsóknarferlinu að Evrópusambandinu áfram. Stefnan hljóðar svo: "Landsfundur telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að standa fyrir utan Evrópusambandið. Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu." 

Eldri skrif:

Trúverðugt? 

Sérlausnir eru ekki undanþágur

Illugi leiðréttur


Trúverðugt?

Hversu margir af þeim sem fullyrða hvað mest þessa dagana að ekki liggi fyrir hvað innganga í Evrópusambandið hefði í för með sér ætli hafi lesið Lissabon-sáttmálann, grundvallarlöggjöf sambandsins? Væntanlega er leitun að þeim ef þeir eru þá yfir höfuð til.

Það er einfaldlega ekki trúverðugt að halda því fram að upplýsingar vanti í þessum efnum ef menn hafa ekki einu sinni haft fyrir því að kynna sér til hlítar þær upplýsingar sem þegar liggja fyrir. Þar á meðal grundvallargögn eins og téðan Lissabon-sáttmála.

Staðreyndin er sú að það hefur alltaf legið fyrir hvað innganga í Evrópusambandið hefði í för með sér og það hefur sambandið sjálft ítrekað vakið máls á enda geti hver sem er kynnt sér löggjöf þess. Ekkert sé í boði sem ekki rúmist innan hennar.

Eldri skrif:

Sérlausnir eru ekki undanþágur

Illugi leiðréttur 


Sérlausnir eru ekki undanþágur

Mikið hefur verið rætt að undanförnu um það hvort Ísland gæti fengið svonefndar sérlausnir eða varanlegar undanþágur frá löggjöf Evrópusambandsins ef landið færi þar inn. Talsverðs miskilnings hefur gætt í þeim efnum og þetta stundum lagt að jöfnu. Vafalítið hefur það verið gert með vilja í sumum tilfellum til þess láta í það skína að eitthvað meira kynni að vera í boði en raunveruleikinn hljóðar upp á og í öðrum væntanlega vegna vanþekkingar.

Grundvallarmunur er á sérlausnum og varanlegum undanþágum. Varanlegar undanþágur fela það í sér að eitthvað standi utan við lögsögu Evrópusambandsins og þar með yfirstjórn þess. Með öðrum orðum hafi sambandið einfaldlega enga aðkomu að málinu enda sé það ekki á forræði þess. Eini möguleikinn til þess að Ísland gæti haldið yfirráðum yfir sjávarútvegsmálum sínum ef inn í Evrópusambandið yrði farið væri með varanlegri undanþágu frá sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins og þeim ákvæðum Lissabon-sáttmálans sem kveða á um algert forræði þess í þeim efnum.

Sérlausnir kveða hins vegar einungis á um stjórnsýslubreytingar upp að einhverju marki en í samræmi við grundvallarlöggjöf Evrópusambandsins. Þá einkum og sér í lagi Lissabon-sáttmálann þar sem, eins og áður segir, er meðal annars kveðið á um algert forræði sambandsins í sjávarútvegsmálum. Með öðrum orðum þýða sérlausnir að viðkomandi mál eru eftir sem áður á forræði Evrópusambandsins og undir vald þess og yfirstjórn sett. Sérlausnir gætu þannig aldrei orðið til þess að Íslendingar héldu yfirráðum sínum yfir stjórn sjávarútvegsmála á Íslandsmiðum og nýtingu auðlinda þeirra.

Heimskautalandbúnaður og sænskt snus

Gott dæmi um það hvernig sérlausnir virka er svonefndur heimskautalandbúnaður Finnlands og Svíþjóðar sem oft verið verið rætt um. Þarlendum stjórnvöldum er heimilt samkvæmt inngönguskilmálum landa sinna í Evrópusambandið að styrkja innlendan landbúnað norðan 62. breiddargráðu og á nokkrum aðliggjandi svæðum úr vösum eigin skattgreiðenda til viðbótar við landbúnaðarstyrki sambandsins. Hins vegar getur sambandið eftir atvikum ákveðið að stuðningurinn falli alfarið á brott með breyttum áherzlum þess í landbúnaðarmálum. Málið er einfaldlega á forræði Evrópusambandsins. Lesa má um þetta meðal annars í riti Stefáns Más Stefánssonar, lagaprófessors við Háskóla Íslands og sérfræðings í Evrópurétti, Landbúnaðarlöggjöf Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins frá 2011.

Einnig má til að mynda nefna sænska munntóbakið snus en samkvæmt inngönguskilmálum Svíþjóðar í Evrópusambandið mátti áfram framleiða og neyta þess innan sænskra landsteina. Hins vegar var sala þess til annarra ríkja sambandsins og neyzla þess þar bönnuð. Þessu var fagnað sem miklum sigri í viðræðum um inngöngu Svía í Evrópusambandið. Fyrir ekki alls löngu hugðist sambandið hins vegar setja nýjar reglur sem banna áttu bragðefni í munntóbaki sem hefðu gert framleiðslu á snusi ómögulega en ráðamenn í Brussel féllu að lokum frá þeim áformum. Þetta gat Evrópusambandið hins vegar gert og getur enn vegna þess að málið heyrir undir lögsögu þess og forræði.

Þessi tvö dæmi varpa ágætu ljósi á það hvernig sérlausnir virka. Þær koma ekki í veg fyrir að yfirstjórn viðkomandi mála færist til Evrópusambandsins. Einungis varanlegar undanþágur frá valdi sambandsins geta mögulega tryggt slíkt. Evrópusambandið hefur hins vegar ítrekað lýst því yfir að varanlegar undanþágur séu ekki í boði fyrir umsóknarríki enda hefur engu ríki sem gengið hefur í sambandið staðið slíkt til boða líkt og meðal annars er rakið í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem birt var í síðustu viku. Það eina sem kann að vera í boði eru sérlausnir og tímabundnar undanþágur.

Hvað með allt hitt fyrir utan sjávarútveginn?

Þá má geta þess að síðast þegar Norðmenn sóttu um inngöngu í Evrópusambandið fóru þeir fram á að fá að halda yfirstjórn sinni yfir eigin sjávarútvegi. Ekki sízt með vísan í mikilvægi hans fyrir ýmsar byggðir landsins og útflutning þess. En sambandið hafnaði því alfarið. Meðal annars með vísan í að slíkt færi í bága við löggjöf þess auk þess sem önnur ríki gætu þá farið fram á það sama. Þeim var hins vegar boðin tímabundin undanþága sem fallið hefði úr gildi sumarið 1998. Um þetta er ítarlega fjallað í bók Stefáns Más og Óttars Pálssonar, hæstaréttarlögmanns, Fiskveiðireglur Íslands og Evrópusambandsins frá árinu 2003. 

Hitt er svo annað mál að jafnvel þó Ísland færi inn í Evrópusambandið með slíka varanlega undanþágu fyrir sjávarútveginn sem engar líkur eru þó á að fengist, hvað með allt hitt? Eðlilega hlýtur sú spurning að vakna hvað það stoðaði ef landið færi að öðru leyti undir yfirstjórn Evrópusambandsins á flestum öðrum sviðum og sífellt fleiri eins og sambandið hefur verið að þróast? Væri það ásættanlegt? Ég á bágt með að ímynda mér það.


Illugi leiðréttur

Sumarið 2009 voru uppi háværar raddir um að fyrirhuguð ákvörðun þáverandi ríkisstjórnarflokka, Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, um að sótt yrði um inngöngu í Evrópusambandið yrði borin undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Málflutningur þáverandi stjórnarandstöðu í miklum umræðum um málið á Alþingi sem og utan þings snerist að stóru leyti um þá kröfu. Hins vegar voru allar tilraunir í þá veru stöðvaðar af stjórnarliðum.

Þann 10. júní 2009, rúmlega mánuði áður en endanlega var samþykkt á Alþingi að sótt yrði um inngöngu í Evrópusambandið, voru birtar niðurstöður skoðanakönnunar sem Capacent vann fyrir samtökin Heimssýn sem sýndi að rúmlega 3 af hverjum 4 töldu miklvægt að ákvörðunin um umsókn yrði borin undir þjóðina í þjóðaratkvæði eða 76,3%. Einungis 17,8% töldu það ekki mikilvægt. 

Breytingatillaga við þingsályktun stjórnarflokkanna um að sótt yrði um inngöngu í Evrópusambandið var borin upp við þinglega meðferð málsins af hálfu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálanefnd 10. júlí þess efnis að ákvörðunin yrði borin undir þjóðina. Því var hins vegar að hafnað af stjórnarliðum en stutt af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins (fyrir utan einn) og Hreyfingarinnar.

Strax í lok maí höfðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins ennfremur lagt fram sameiginlega þingsályktunartillögu þar sem meðal annars var gert ráð fyrir aðkomu þjóðarinnar að fyrirhugaðri ákvörðun stjórnvalda um sækja um inngöngu í Evrópusambandið. Stjórnarliðar komu hins vegar að sama skapi í veg fyrir að hún næði fram að ganga.

Við þetta má bæta að Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi formaður VG, segir frá því í nýlegri bók sinni að vinstri-grænir hafi viljað að umsókn um inngöngu í Evrópusambandið yrði lögð í dóm þjóðarinnar en Samfylkingin hafi hafnað því og sett sem skilyrði fyrir ríkisstjórnarmyndun flokkanna eftir þingkosningarnar 2009 að „ESB-umsókn væri í höfn“. Þannig má segja að þjóðaratkvæði um umsóknina hafi verið studd af öllum flokkum á þingi fyrir utan Samfylkinguna. 

Hér er farið hratt yfir sögu og einungis drepið á helztu staðreyndum í þessum efnum. En þrátt fyrir þær halda sumir því fram að það hafi verið „næstum engar kröfur uppi“ sumarið 2009 um að umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið yrði lögð í þjóðaratkvæði áður en henni var komið til Brussel. Og kóróna það síðan með því að saka aðra um að muna ekki neitt!

Einmitt :)

 


Frekar öfugt farið

Skipun nýs sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Íslandi er til marks um að Bandaríkjamenn hafi minni áhuga á landinu en áður. Þetta vill Egill Helgason meina. Vísar hann þar til þess að nýi sendiherrann, Robert C. Barber, hafi fengið embættið að launum fyrir að borga í kosningasjóð Baracks Obama Bandaríkjaforseta. Þetta er svo sannarlega allt saman satt og rétt.

Það sama á hins vegar við um fleiri sendiherra Bandaríkjanna. Til að mynda nýjan sendiherra Noregs. Raunar hafa bandarískir forsetar lengi fylgt þeirri stefnu að í kringum 30% af sendiherrum landsins séu pólitískt skipaðir. Í ófáum tilfellum stuðningsmenn sem borgað hafa í kosningasjóði forsetanna. Það sem meira er þá virðast beztu bitarnir vera geymdir fyrir pólitískar skipanir.

Þannig eru pólitískt skipaðir sendiherrar Bandaríkjanna um þessar mundir meðal annars að finna í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Noregi sem fyrr segir. Sömuleiðis í Ástralíu, Austurríki, Belgíu, Kanada, Kína, Þýzkalandi, Vatíkaninu, Ísrael, Japan, Lúxemburg, Hollandi, Ítalíu, Nýja Sjálandi, Portúgal, Rússlandi, Sádi Arabíu, Singapúr, Suður Afríku, Spáni, Sviss og Bretlandi.

Sömu sögu er að segja um sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Evrópusambandinu, Anthony L. Gardner, sem líkt og Barber safnaði miklu fé í kosningasjóði Obama. Þá eru sendiherrar Bandaríkjanna til að mynda gagnvart Sameinuðu þjóðunum og Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) einnig pólitískt skipaðir og sama er að segja um Atlantshafsbandalagið (NATO).

Það má því miklu fremur halda því fram að sú ákvörðun Baracks Obama, Bandaríkjaforseta, að skipa pólitískan bandamann sinn en ekki embættismann sendiherra á Íslandi sé til marks um það að hann telji Ísland skipta meira máli en áður en hitt en síðustu sendiherrar Bandaríkjanna hér á landi hafa verið embættismenn og Ísland þá gjarnan fyrsta sendiherraembætti þeirra.


Batnandi mönnum og það allt

Það verður að teljast jákvætt að stuðningsmenn inngöngu í Evrópusambandið séu farnir að gangast við staðreyndum eins og þeim að sambandið sé þegar orðið að sambandsríki á ýmsan hátt og að umsóknin um inngöngu í það hafi skaðað síðustu ríkisstjórn. Það styttist þá kannski í að þeir viðurkenni til að mynda líka þá staðreynd að þegar liggi fyrir í öllum meginatriðum hvað innganga í Evrópusambandið hefði í för með sér. Nokkuð sem þeir hafa reyndar þegar gert með óbeinum hætti enda fyrir löngu tekið afstöðu til málsins sjálfir.

Krísubandalagið?

Það er ekki að ástæðulausu að sumir hafa viljað kalla Evrópusambandið krísubandalagið. Ef ekki hafa verið í gangi efnahagskrísur þar á bæ hafa það verið stjórnmálakrísur. Eða þá hvort tveggja. Aðrir hafa bent á að sambandið hafi alltaf hagnast á krísum. Þær hafi iðulega leitt til enn meiri samruna innan þess.

Einhverju sinni fyrir nokkrum árum þegar allt var á öðrum endanum innan Evrópusambandsins eins og svo oft áður sagði stjórnmálafræðingur nokkur og fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar að það væri einungis eðlilegt ástand enda hefði sambandið verið sett á leggirnar til þessa að leysa úr krísum.

Hvort það er rétt má svo sannarlega deila um og eins hitt hvernig til hafi tekizt í þeim efnum. Hitt er svo annað mál að í seinni tíð hefur Evrópusambandið frekar reynzt vera uppspretta krísuástands í samskiptum ríkja i Evrópu en hitt og sér líklega ekki fyrir endann á því.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband